Gríðarlegt flúormagn í öskunni

Í sýnum sem tekin voru af ösku undir Eyjafjöllum á mánudaginn og rannsökuð voru hjá Jarðvísindastofnun reyndist flúormagn vera um 850 mg/kg samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar.

Fóður sem inniheldur stöðugt 250 mg/kg getur valdið bráðri eitrun eftir skammvinna neyslu. Þolmörk í fóðri nautgripa eru oft sett við 25-30 mg/kg og sauðfjár við 70-100 mg/kg.

Mjög mikilvægt er að forða skepnum undan öskufalli og tryggja þeim aðgang að fóðri og hreinu rennandi vatni. Ef útlit er fyrir öskufall skal hýsa skepnur eða flytja annað ef nokkur kostur er. Hafa skal samband við dýralækni ef skepnur verða veikar.