Gríðarlega veglegt ritverk

Héraðssambandið Skarphéðinn hélt í gærkvöldi útgáfuhóf en saga sambandsins, HSK í 100 ár, eftir Jón M. Ívarsson kom út í gær.

Um gríðarlega veglegt ritverk er að ræða þar sem saga sambandsins undanfarin 100 ár er rakin. Héraðssambandið Skarphéðinn var stofnað árið 1910 og er útgáfa bókarinnar lokahnykkurinn á dagskrá afmælisársins. Bókin er 545 blaðsíður og í henni er á áttunda hundrað mynda.

Fjölmenni var á útgáfuhátíðinni sem haldin var á Hótel Geysi í Haukadal, margir fluttu ávörp og gestir sungu einnig saman nokkur lög.

Við þetta tilefni var höfundurinn, Jón M. Ívarsson, sæmdur gullmerki HSK. Þá var Guðni Guðmundsson á Þverlæk einnig heiðraður sérstaklega en hann hefur lagt vel á sjötta hundrað þúsund króna í bókasjóð HSK sem er afrakstur dósasöfnunar Guðna. Hann tók við fyrsta eintaki bókarinnar úr höndum Guðríðar Aadnegaard, formanns HSK.