Gríðarleg veltuaukning á milli ára

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á Suðurlandi í janúar 2016 var 55. Það eru mun fleiri samningar en í sama mánuði á síðustu þremur árum.

Í fyrra var 36 kaupsamningum þinglýst í janúar á Suðurlandi, og tölurnar eru svipaðar árin 2013 og 2014.

Af samningunum 55 voru sjö samningar um eignir í fjölbýli, þrjátíu samningar um eignir í sérbýli og átján samningar um annars konar eignir.

Heildarveltan var rúmir 1,3 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 24,1 milljón króna. Í janúar í fyrra var heildarveltan á Suðurlandi 459 milljónir króna.

Af þessum 55 samningum var 42 samningum um eignir á Árborgarsvæðinu þinglýst. Þar af voru sjö samningar um eignir í fjölbýli, 27 samningar um eignir í sérbýli og átta samningar um annars konar eignir.

Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var 998 milljónir króna og þarf að leita aftur til ársins 2008 til að finna svipaða veltu í janúar, en hún var þá 850 milljónir króna. Ekki hefur fleiri kaupsamningum verið þinglýst í janúar á Árborgarsvæðinu síðan árið 2006, þegar þeir voru 50 talsins.

Þetta kemur fram í markaðsfréttum Hagstofunnar.

Fyrri greinHamar vann langþráðan sigur
Næsta greinHringveginum lokað vegna óveðurs