Grétar tekur við rekstri Endor

Nú um mánaðarmótin mun Grétar Magnússon, starfsmaður Endor á Selfossi taka við rekstri og þjónustu við viðskiptavini Endor í nafni nýs fyrirtækis Vefþjónustan sf.

Stofnandi Endor, Júlíus M. Pálsson, mun hætta störfum hjá fyrirtækinu en hann hefur undanfarin misseri verið í verkefnum tengdu fyrirtækinu í Noregi og mun halda þeim störfum áfram. Eftir sem áður mun hann verða til halds og trausts hjá Endor með sérfræðiþekkingu sinni og ráðgjöf.

Starfsheiti fyrirtækisins verður Endor – Vefþjónustan sf. héðan í frá og af þessu tilefni verður ný heimasíða fyrirtækisins, www.endor.is, sett í loftið þann 1. júlí.

“Viðskiptavinir munu ekki finna fyrir neinum breytingum hvað þjónustu varðar. Þeir munu halda áfram að fá sömu frábæru þjónustuna hjá Endor-Vefþjónustunni, en ætlunin er að auka við og breikka vöruúrvalið,” sagði Grétar í samtali við sunnlenska.is.

Ásamt því að bjóða upp á uppsetningu á vefsíðum og sérforritun fyrir fyrirtæki og félagasamtök þá mun fyrirtækið meðal annars bjóða uppá útlitshönnun á vefsíðum og vefborðum, vefgreiningar o.fl.

Það sem af er ári hefur mikið verið að gera í uppsetningum á nýjum vefsíðum en fyrirtækið setur upp alla sína vefi í WordPress vefumsjónarkerfinu sem er eitt útbreiddasta vefumsjónarkerfið í heiminum í dag. Sem dæmi má nefna að WordPress er notað á 14% af milljón stærstu vefsvæðum í heiminum.

Grétar segir að ótrúlegur sveiganleiki og einfaldleiki WordPress sé stærstu kostir þess. ,,Möguleikarnir eru bara svo miklir með WordPress. Það er gríðarlegur fjöldi til af viðbótum í kerfið og snilldin er sú að í langflestum tilfellum þarf ekki að borga krónu fyrir leyfi, hvorki fyrir grunnkerfið eða viðbæturnar.“

Fyrri greinJarðskjálftar í brennidepli
Næsta greinGaskútaþjófar gripnir