Virk sprengja frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar fannst á Eyrarbakka í gær, skammt frá fangelsinu á Litla-Hrauni.
Einstaklingur með málmleitartæki fann sprengjuna og gerði lögreglunni viðvart. Sprengjunni var svo í kjölfarið eytt af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar.
Finnandi sprengjunnar vill ekki láta nafns síns getið en féllst á að veita sunnlenska.is viðtal.
„Ég var á túni sem er rétt sunnan við Litla-Hraun og var búinn að vera þar í nokkrar mínútur þegar það kemur merki á tækið. Ég ákvað að grafa ofan í jörðina og sá að það var eitthvað ryðgað dót, sem ég tók varlega upp og þá var þetta bara einhver skrítinn hlutur. Ég hugsaði strax að þetta gæti verið sprengja,“ segir maðurinn í samtali við sunnlenska.is.
Hann hreyfði hlutinn ekki mikið eftir að hann tók hann upp úr jörðinni því hann áttaði sig á því að þetta gæti verið eitthvað hættulegt.
„Ég ákvað að Googla fyrst með myndaleit og þegar ég gerði það þá kom upp fullt af niðurstöðum af sprengjum og fréttir um að það hefðu fundist sprengjur á golfvöllum, sem litu nákvæmlega út eins og þetta. Þannig ég ákvað að senda líka mynd af þessu í ChatGPT og spurði bara hvað er þetta? Og það fyrsta sem ChatGPT sagði væri að þetta væri líklega sprengja. Þannig að ég ákvað að hringja í 112 og þeir gáfu mér samband við lögregluna á Selfossi.“

Leið kjánalega að láta vita af þessu
„Lögreglan skoðaði þetta fyrst í gegnum myndsímtal og sá sem ég talaði við fannst þetta eitthvað skrítið og ákvað að koma og kíkja. Svo þegar hann var búinn að skoða þetta þá kallaði hann á Landhelgisgæsluna þar sem þeir voru staddir rétt hjá. Svo sá ég bara frétt áðan um að það hefði fundist sprengja hjá Litla-Hrauni. Þannig frétti ég það þetta hefði verið sprengja.“
„Mér leið svolítið kjánalega að láta vita af þessu, vegna þess að þetta hefði þess vegna getað verið einhver gamall hlutur úr traktor eða gamall tjakkur, því að þetta leit svo skringilega út. Mér leið svolítið asnalega að vera að tilkynna þetta en það var gott að ég lét tilfinninguna ráða.“
Gömul herstöð ekki langt frá
Aðspurður hvernig honum hefði orðið við þegar hann fann sprengjuna segir hann að hann hafi verið nokkuð slakur.
„Ég ákvað að vera ekkert að stugga við þessu og hringdi bara. Ég var ekkert mikið nálægt þessu eftir að ég skoðaði þetta betur. Mér datt alveg í hug að þetta gæti verið sprengja þar sem það var gömul herstöð í Kaldaðarnesi og hermennirnir voru með æfingar víða, þannig að mér fannst ekki ólíklegt að það hefðu verið sprengjur hérna á svæðinu.“
Málmleitartæki fylgir ábyrgð
Maðurinn er er ekki búinn að eiga málmleitartækið lengi en hann keypti það í ágúst síðastliðnum. „Ég er mest bara búinn að finna eitthvað saklaust. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegt áhugamál hjá mér. Það skemmtilegasta sem ég hef fundið er gamall hringur sem er ótrúlega sérstakur. Hann er greinilega handgerður og það er útskorið dýramynstur á honum. Svo hef ég fundið gamlar myntir, sú elsta er frá 1946. Alveg skemmtilegt.“

Maðurinn bætir því við að þetta áhugamál sé ekki bara skemmtilegt heldur líka krefjandi og ábyrgðarfullt. „Það eru lög um málmleitartæki. Þú mátt ekki fara á friðaða staði. Þú mátt ekki raska jörðinni, ég passa mig alltaf á því að laga til eftir mig ef ég gref eitthvað upp. Ég geri alltaf litlar holur eða skurði þannig að þetta grær aftur. Það þarf að gera þetta af ábyrgð.“
Mjög grunnt á sprengjunni
Sprengjan var aðeins 2-3 cm undir grasinu. „Kannski var búið að plægja þetta tún nokkrum sinnum, maður veit það ekki. Það var kannski skárra að ég fann þetta heldur en einhver bóndi sem væri að plægja,“ segir maðurinn sem ætlar að halda áfram með þetta áhugamál sitt. „Ég veit ekki hvað ég get búist við að finna í framhaldinu. Ég er náttúrulega búinn að finna eina sprengju núna, það verður erfitt að toppa það.“
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var um að ræða Mortar sprengivörpukúlu, sem skotið var úr hólki. Sprengjan var virk og var henni eytt á öruggan hátt af sérfræðingum Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi en til þess var notuð önnur sprengja. Landhelgisgæslan var svo á svæðinu í dag við frekari sprengjuleit en ekki fundust fleiri sprengjur.


