Greiddu reikninginn en telja framkvæmdina ámælisverða

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á síðasta fundi sínum að greiða verktakanum KNH ehf 3,5 milljónir króna vegna lagningar bundins slitlags á heimreið að vatnsverksmiðju Icelandic Water Holdings að Hlíðarenda í Ölfusi.

Bæjarstjórnin hafði náð samkomulagi við KNH um 3,5 milljón króna greiðslu en upphaflega vildi KNH fá fimm milljónir króna fyrir verkið.

Bæjarstjóra var jafnframt falið að óska eftir því við Icelandic Water Holdings ehf að fyrirtækið taki þátt í framkvæmdakostnaðinum þar sem að um mun umfangsmeiri og dýrari framkvæmd var að ræða samanborið við malbiksframkvæmdir á öðrum heimreiðum í sveitarfélaginu.

Við afgreiðslu málsins á fundinum lögðu fulltrúar minnihlutans fram tillögu þar sem þau sögðu óeðlilegt að Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri, hafi gefið einhliða leyfi til lagningar bundins slitlags heimreiðar að fyrirtæki án samþykkis bæjarstjórnar eða bæjarráðs. Minnihlutinn vildi að réttarstaða sveitarfélagsins yrði könnuð gagnvart Ólafi Áka Ragnarssyni og IWH en sú tillaga var felld af meirihlutanum.

Fulltrúar meirihlutans lögðu síðan fram bókun þar sem þau segja að þrátt fyrir að reikningur KNH hafi verið samþykktur þá telji meirihlutinn að þau vinnubrögð sem höfð voru uppi við framkvæmd verkefnisins séu ámælisverð og ekki til eftirbreytni, né í þeim anda sem núverandi meirihluti vill starfa eftir.

Jón Ólafsson, eigandi vatnsverksmiðjunnar, hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann sjái ekki ástæðu fyrir því að fyrirtækið taki þátt í malbikunarkostnaði sveitarfélagsins. Sveitungar hans hafi fengið malbikið án greiðslu.