Greiðslustöðvun Ræktó lokið og nauðasamningar í gang

Greiðslustöðvun Ræktunarsambands Flóa og Skeiða er runnin út og félagið þar með komið í formlegt nauðasamningaferli.

Að sögn Ólafs Snorrasonar, framkvæmdastjóra Ræktó, ríkir bjartsýni með að það takist að ljúka nauðasamningum fljótlega enda hafa stærstu kröfuhafar, Landsbankinn og Lýsing, samþykkt tilhögun þeirra.

Miðað er við að kröfuhöfum séu greiddar 32,5% af kröfum sínum en Ólafur sagði að í raun væri hlutfallið hærra þar sem eignir þær sem Landsbankinn væri að fá væru verðmætari. Afdrif og meðhöndlun erlendra lána getur einnig haft áhrif á úthlutunina.

Núverandi hluthafar munu áfram ráða yfir félaginu en þeir hafa gefið út að þeir muni koma inn með nýtt hlutafé að verðmæti 60 milljónir króna.