Greiðir niður skuldir við veitustofnanir

Bæjarsjóður Árborgar greiddi Fráveitu Árborgar 226 milljónir króna á síðasta ári með skuldajöfnun. Á sama tíma greiddi bæjarsjóður niður skuld sína við Vatnsveitu Árborgar um 108 milljónir króna með sama hætti.

Með þessu lækkuðu skuldir bæjarsjóðs við B-hluta stofnanir um 334 milljónir á árinu. Með þessari aðgerð lækka brúttóskuldir B-hlutastofnanna við bæjarsjóð niður í 0 og ætti efnahagsreikningur fyrir árið að gefa betri mynd af skuldum innan samstæðu sem hafa lækkað talsvert.

Framundan eru talsverðar fjárfestingar í fráveitumálum og er gert ráð fyrir því að framkvæmdir við hreinsistöð hefjist á þessu ári. Gert er ráð fyrir fjármögnun þeirra framkvæmda í fjárhagsáætlun.