Greið leið um Bláskógabyggð

Nýr vegur yfir Lyngdalsheiði var formlega opnaður síðdegis í dag með borðaklippingu að viðstöddu fjölmenni í grenjandi rigningu ofan við Laugarvatn.

Ögmundur Jónasson, samgönguráðherra, klippti á borða og naut við það aðstoðar Hreins Haraldssonar, vegamálastjóra og Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra. Þar með var umferð hleypt formlega á veginn.

Heildarvegalengd Lyngdalsheiðarvegar er um 15 km frá Laugarvatni að Þingvallavegi við Miðfell. Að auki var byggður nýr tengivegur frá Lyngdalsheiðarvegi að gamla Gjábakkavegi um 1,7 km langur sem nýtast mun þeim sem vilja aka að Laugarvatnshelli. Einnig var innifalið í verkinu að gera hringtorg við Laugarvatn og tvo áningastaði við Lyngdalsheiðarveg.

Áætlaður heildarkostnaður vegna verksins er tæpir 1,3 milljarðar króna.

Þar sem nýi vegurinn liggur ekki lengur um land Gjábakka var sú ákvörðun tekin að nefna veginn Lyngdalsheiðarveg þó svo hann liggi rétt norðan við sjálfa Lyngdalsheiðina og hefur það heiti verið notað síðan. Nýi vegurinn bætir samgöngur í Bláskógabyggð og eykur umferðaröryggi á leiðinni. Jafnframt er nýjum vegi ætlað að bæta aðgengi ferðamanna og sumarhúsagesta að vinsælum áningar- og ferðamannastöðum.

Verktaki í upphafi var Klæðning en fyrirtækið lenti hinsvegar í fjárhagserfiðleikum á fyrri hluta árs 2009 og kom um þriggja mánaða stopp í framkvæmdir. Vélaleiga AÞ ehf tók við verkinu á miðju ári 2009 þegar búið var að vinna um 1/3 af verkinu. Þrátt fyrir vandræði Klæðningar hélst verkáætlun en áætluð verklok í upphafi voru 1. september sl. Umferð var hleypt á veginn fyrir nokkrum vikum en ennþá á eftir að ganga frá vegmerkingum og öryggisbúnaði vegarins.

Helstu undirverktakar voru Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf, Hlaðbær Colas, Vatnsskarðsnámur.