„Granítharður á að opna nýjan stað“

„Maður er bara enn að átta sig á þessu. Þessi dagur er búin að vera ein löng jarðarför en ég er alveg granítharður á því að byggja upp nýjan stað.“

Þetta segir Eiður Birgisson, veitingamaður á 800Bar í samtali við sunnlenska.is. Staðurinn eyðilagðist í eldsvoða í dag.

„Ég er ekki búinn að hugsa næsta leik en í fljótu bragði er hugmyndin að byggja nýjan stað á sama stað. Hvort ég opna staðinn tímabundið í öðru húsi verður að koma í ljós.“

Eiður hefur fundið fyrir miklum stuðningi úr samfélaginu í dag en 800Bar er eini skemmtistaðurinn á Selfossi sem opinn er hverja helgi.

„Ég heyri það að fólki þykir þetta mjög leiðinlegt og ég hef fundið fyrir miklum og góðum stuðningi sem er vert að þakka fyrir.“

Að sögn Eiðs er allt sem innanstokks var gjörónýtt en lítilræði af verðmætum var bjargað áður en eldurinn læsti sig í þak hússins.