Grafinn upp úr kviksyndi

Lögreglan á Hvolsvelli og björgunarsveitir þurftu að grafa níu ára dreng upp úr kviksyndi fyrir neðan Þórólfsfell í dag.

Drengurinn var á gangi á aurum nokkuð vestan við Gilsá þegar hann byrjaði að sökkva í kviksyndi. Ferðafélagar hans hringdu eftir aðstoð og biðu hjá honum. Þegar björgunarsveitir komu á staðinn um tuttugu mínútum síðar hafði drengurinn sokkið upp að mitti. Björgunarsveitarmennirnir lögðu planka við hlið drengsins og grófu hann síðan upp.

Sveinbjörn Már Birgisson hjá björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli segir í samtali við RÚV að á þessum stað hafi lengi verið stór pollur. Hingað til hafi enginn gengið út á svæðið þar sem drengurinn festist því þar sé venjulega fullt af vatni en núna sé pytturinn hins vegar hulið gosösku.

Fyrri greinTorsóttur sigur Selfoss
Næsta greinFramboðin birti kostnaðartölur