Grafa í sundur veginn til að verja brúarsmíðina

Gröfur hafa verið á svæðinu síðustu daga til þess að halda árfarveginum opnum. Ljósmynd/Grétar Einarsson

Skeiða- og Hrunamannavegi verður lokað við Stóru-Laxá á hádegi á morgun, fimmtudag, vegna yfirvofandi vatnavaxta um helgina. Vegurinn verður grafinn í sundur við Stóru-Laxá til þess að verja nýja brúarmannvirkið sem þar er í smíðum.

„Brúaropið í dag er svo lítið vegna framkvæmdanna við nýju brúna og það yrði mikið tjón ef undirsláttur hreyfðist til,“ sagði Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði, í samtali við sunnlenska.is.

„Vegurinn verður bara grafinn í sundur við brúarenda núverandi brúar og veitt framhjá,“ segir Svanur.

Búist er við að lokunin vari í nokkra daga og er ökumönnum beint um hjáleiðir í uppsveitunum.

Stefnt er að því að hefja steypuvinnu við brúargólfið á nýju brúnni á morgun fimmtudag og hefur verið byggður skáli yfir brúnna sem verður upphitaður í 10°C. Steypuvinnan verður gerð í einu lagi á 36 klukkustundum en um 130 fullhlaðnir steypubílar fara í verkið.

Unnið hefur verið að því að byggja skála yfir nýju brúna sem halda á heitum á meðan á steypuvinnunni stendur. Ljósmynd/Grétar Einarsson
Ökumönnum er bent á merktar hjáleiðir um Skálholtsveg (31), Biskupstungnabraut (35) og Bræðratunguveg (359). Mynd/Vegagerðin
Fyrri greinHamarshöllin boðin út
Næsta greinByrjunin slæm í báðum hálfleikum