Græni herinn hefur nýja ljóstillífun í Hveragerði

Fyrir 20 árum hóf Græni herinn starfssemi sína. Yfir 1.500 sjálfboðaliðar um allt land skráðu sig sem liðsmenn og lögðu gjörva hönd á að gróðursetja, hreinsa, mála og fegra landið sitt í tilefni alda- og árþúsundamótanna.

Eitt fjölmargra verkefna sem herinn færðist í fang var að gróðursetja tré meðfram göngustígnum sem liggur frá Listasafni Árnesinga að Grunnskólanum í Hveragerði.

Næstkomandi sunnudag, þann 16. júní, mun á táknrænan hátt verða efnt til gróðursetningar á öðrum stað í Hveragerði sem marka mun upphaf starfssemi Græna hersins í nýrri 5 ára áætlun hans. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta og taka þátt í gróðursetningunni og fagna þar með nýrri ljóstillífun Græna hersins á 20 ára afmæli hans á þessu góða sumri.

Gróðursetningin hefst klukkan 14:00 á sunnudaginn að Þelamörk 2 í Hveragerði og eru allir hjartanlega velkomnir.

Fyrri greinÞakka Gunnari fyrir að koma mér í stand
Næsta greinLeitað að vitnum að líkamsárás