„Grænkálið á allt gott umtal skilið“

Hinn árlegi lífræni bændamarkaður á Engi í Biskupstungum opnaði um hvítasunnuhelgina. Er þetta sjötta árið sem markaðurinn er haldinn.

„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar,“ segir Ingólfur Guðnason sem rekur garðyrkjustöðina á Engi ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Elfu Reynisdóttur.

„Við reynum að vera með mikið úrval og erum að rækta allt sjálf sem við seljum hérna. Á markaðnum má finna innigrænmeti og alls konar gróðurhúsagrænmeti eins og t.d. gulrætur sem eru ræktaðar í gróðurhúsum. Einnig erum við með sjaldséðara grænmeti eins og eggaldin, kúrbít og chilli pipar og alls konar salattegundir,“ segir Ingólfur.

Allt fyrr á ferðinni í ár
Aðspurður segir Ingólfur að ræktunin hafi gengið mjög vel í ár. „Það er mun auðveldara að rækta allt í vor heldur en síðasta vor. Grænmetið er fyrr á ferðinni, það hafa ekki verið nein átök í veðrinu. Þetta hefur verið þægileg vorkoma og engin áföll, engin rok eða stórrigningar, þannig að útiræktunin hefur gengið vel. Vorið var þokkalega bjart þannig að það hefur gengið mjög vel að rækta í plasthúsum sem eru ekki upphituð. Allt í allt lítur þetta mjög vel út,“ segir Ingólfur og bætir því við að nú sé verið að taka úr plasthúsum, salöt og ýmiskonar grænmeti. „Við erum að bíða eftir að grænmeti úr útigörðunum komi í sölu og ef svona heldur áfram þá verður það í byrjun júlí. Þá bætast við rófur, spergikál, blómkál og allar þessar káltegundir.“

Grænkálið mjög vinsælt
Ingólfur segir að það sé árstíðarskipt hvaða tegundir séu vinsælastar. „Núna er það t.d. grænkálið sem hefur verið vinsælt í allan vetur og það hefur gengið mjög vel. Við erum búin að vera að taka upp gulrætur í nokkrar vikur úr upphituðu gróðurhúsi og þær fara bráðum að klárast og þá taka þær við sem eru ræktaðar í óupphituðum plasthúsum,“ segir Ingólfur sem bætir því við að gulræturnar hafi alltaf verið mjög eftirsótt vara enda mjög ljúffengar.

Að sögn Ingólfs sé grænkálið orðin mjög vinsæl vara og hafa þau reynt að sinna eftirspurninni eftir fremsta megni. „Við höfum verið að uppskera í allan vetur úr gróðurhúsunum og höldum því áfram. Grænkálið á allt gott umtal skilið – það er meinholt grænmeti. Það er svona farið að fá sinn sess á matarborðum.“

Jarðarberin selja sig sjálf
Auk grænkálsins eru berin á Engi mjög eftirsótt. „Jarðarberin eru að koma núna á næstu dögum og kirsuberin í kjölfarið. Þau selja sig nánast sjálf og við seljum þau bara á staðnum,“ segir Ingólfur en vegna mikilla vinsælda ná þau ekki að senda jarðarberin í búðir þar sem þau seljast jafn harðan og þau koma á markaðinn. Ingólfur segir einnig að kryddjurtirnar séu sívinsælar en þær eru hægt að fá í búðum allt árið í kring.

Sextíu tegundir af lífrænu grænmeti
„Við erum alltaf að reyna nýjar tegundir, t.d. í salatið sem við seljum afskorið í salatblöndur. Við erum svona að þreifa fyrir okkur í kryddjurtunum líka. Við höfum t.d. verið að kynna til sögunnar steviu sem er svona sykurplanta sem bragðast eins og sykur en það vantar ennþá upp á að neytendur séu að átta sig á hvað hún er skemmtileg vara,“ segir Ingólfur en á Engi er hægt að fá um sextíu tegundir af lífrænu grænmeti, salati og kryddjurtum.

Lítið mál að rækta stevíu
Svokallaðir stevíudropar hafa verið þónokkuð vinsælir upp á síðkastið hjá fólki sem spáir mikið í heilsu og hollustu en stevía er þó ekki nýjung hjá Engi. „Við erum búin að prófa að rækta stevíu í fjöldamörg ár en lengi vel var engin eftirspurn. Svoleiðis hefur það verið með margar þessar tegundir sem við höfum prófað. Það tók t.d. langan tíma að kynna ferskan kóríander og ferska basiliku. Það er langtíma verkefni að koma nýrri vöru inn á markaðinn,“ segir Ingólfur en þau hafa bæði selt þurrkaða stevíu og svo stevíuplöntur. Stevían er þó uppseld hjá þeim í augnablikinu en er í uppeldi og því von á henni aftur seinna í sumar.

„Í rauninni er því ekkert til fyrirstöðu að rækta steviuplöntu í íbúðarhúsum, bara í góðum pottum. Þær geta jafnvel staðið úti yfir sumartímann,“ segir Ingólfur og bætir því við að það sé ekki mikið mál að hugsa um plöntuna. „Stevíuplantan er bara eins og pottaplanta og svo er hægt að taka af þeim lauf eftir því sem þarf.“

Lífrænt eðlilegur valkostur
Ingólfur segir að áhugi fólks fyrir lífrænu grænmeti sé alltaf að aukast. „Vitundin er að aukast. Það er hægt að fá töluvert úrval af lífrænu grænmeti núna en fólk þarf helst að annað hvort að elta það uppi inn í garðyrkjustöð eða fara í sérverslanir sem leggja áherslu á heilsu og hollustu eða lífrænar vörur. Þannig að það er ekki sjálfsagt að finna þetta í öllum stórmörkuðum,“ segir Ingólfur. Hann segir jafnframt að það sé eins og almenningur sé að átta sig á því að þetta er eðlilegur valkostur í innkaupunum

Veitingastaðir áhugasamir
Að sögn Ingólfs hefur áhugi veitingastaða á lífrænu grænmeti einnig farið vaxandi. „Veitingastaðir hafa sumir hverjir mjög mikinn áhuga á að bæta úrvalið hjá sér og laga matseðilinn. Þeir vilja bæði vera með lífrænt ræktað grænmeti og svo leggja sum veitingahús meiri áherslu á að skipta beint við bændur. Veitingastaðir hafa haft töluvert mikið samband við okkur í sambandi við þessar lífrænu kryddjurtir og salattegundir og við höfum alltaf boðið þá velkomna. Þeir koma gjarnan hingað á vorin, sjá hvernig þeir geta hagað matseðlinum yfir sumarið og skiptast á hugmyndum við okkur.“

1.000 fermetra völundarhús
„Fólk er velkomið að koma, skoða sig um, skoða ræktunina og spjalla við okkur,“ segir Ingólfur og bætir því við að það sé einnig margt fyrir börnin að gera á Engi. „Margir hafa gaman af því að fara í völundarhúsið sem er 1.000 fermetrar að stærð og er mjög fallegt,“ segir Ingólfur að lokum en völundarhúsið hefur notið mikilla vinsælda hjá ungum sem öldnum. Bændamarkaðurinn á Engi verður opinn allar helgar í sumar frá föstudegi til sunnudags.


Kirsuberin er sívinsæl, enda einstaklega gómsæt og safarík. sunnlenska.is/Jóhanna SH


Hugrún Britta Kjartansdóttir, vinnukona á Engi, í grænmetismarkaðnum þar sem úrvalið er mikið. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fyrri greinBalkanbandið í Sólheimakirkju
Næsta greinKFR og Hamar áfram í fallsætunum