Grænhóll og Rammi fengu umhverfisverðlaun

Umhverfisnefnd Ölfuss veitti á dögunum viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi fyrirtækja og bóndabýla. Að þessu sinni fóru verðlaunin á Grænhól og til Ramma hf.

Kristbjörg Eyvindsdóttir og Gunnar Arnarsson á Grænhól í Ölfusi viðurkenningu fengu viðurkenningu fyrir einstaklega snyrtilegt og skemmtilegt umhverfi.

Þarna hefur verið vel hugsað um umhverfið og hús. Grænhól eignuðust Gunnar og Kristbjörg um síðustu aldamót. Þau hafa endurbyggt öll útihús á Grænhóli og eru nú með góð hesthús þar fyrir um 50 tamningahross. Þá hafa þau komið sér upp góðu íbúðarhúsi á Grænhóli, byggt þar glæsilega reiðhöll sem var vígð í lok ársins 2007 og haustið 2009 komu þau upp löglegum keppnisvöllum og skeiðbraut í fullri lengd heima á Grænhóli ásamt því að leggja reiðstíga um landið úr efni sem finna má í bæjarlandinu sjálfu. Umgengni öll á búinu hvort sem er utan húss eða innan er til stakra fyrirmyndar og mjög snyrtilegt heim að líta.

Í flokki fyrirtækja hlaut Rammi hf. viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi. Jón Páll Kristóferssson, rekstrarstjóri Ramma hf. tók við verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins.

Rammi hf. rekur í Þorlákshöfn fiskiðjuver þar sem framleiddar eru afurðir fyrir kröfuharða markaði í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum. Rammi gerir einnig út tvö skip frá Þorlákshöfn. Frá aprílbyrjun og fram í lok nóvember er megináherslan lögð á humarvinnslu og er mest af humrinum pakkað heilum og hann frystur. Yfir vetrartímann felst starfsemi Ramma í Þorlákshöfn að mestu leyti á veiðum og vinnslu á þorski, karfa og flatfisktegundum. Það hefur ávallt verið mjög snyrtilegt umhverfi og vel skipulagt. Húsin hafa litið vel út og greinilega fengið gott viðhald

Fyrri greinTvær konur í vanda á Fimmvörðuhálsi
Næsta greinGunnar Bjarni skoraði þrennu í öruggum sigri