Grænfánanum flaggað í Hveragerði

Á fullveldisdaginn afhenti fulltrúi Landverndar Grunnskólanum í Hveragerði Grænfánann sem tákn um framúrskarandi starf að umhverfismálum í skólanum.

Unnið hefur verið að þessu marki í nokkur misseri innan skólans en formlega hófst undirbúningur árið 2008 sem stofnun umhverfsnefndar innan skólans.

Í umhverfisnefnd skólans sitja sex fulltrúar nemenda, þrír kennarar, fulltrúi skólastjórnenda, húsvörður, forsvarsmaður útistofu, auk verkefnisstjóra.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö sem stíga þarf áður en fáninn er hífður að húni eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál.

Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Innan Grunnskólans í Hveragerði hafa Garðar Árnason og Ari Eggertsson, kennarar, borið hitann og þungann af undirbúningi þessarar umhverfisvottunar.

Fyrri greinNýtt verknámshús komið á fjárlög
Næsta greinJurtastofa Sólheima fær lífræna vottun