Græna tunnan komin á VISS – Starfsmenn fengu fjölnota poka

VISS – Vinnu og hæfingarstöð á Selfossi er með umhverfisstefnu þar sem verið er að gera frábæra hluti í flokkun og endurnýtingu.

Á dögunum heimsótti starfsmaður Íslenska gámafélagsins starfsfólkið hjá VISS og kynnti sér hvað þar fer fram enda eiga fyrirtækin það sameiginlegt að vilja endurnýta og flokka sem mest og leggja sitt af mörkum til að vera umhverfisvæn.

Í fréttatilkynningu frá ÍG kemur fram að VISS taki á móti gömlum handklæðum, rúmfötum o.þ.h. og útbýr tuskur sem þau selja svo meðal annars Íslenska gámafélaginu. Eins tekur VISS á móti timbri, glerkrukkum, málningu og efnisbútum.

Hjá VISS er glæsileg verslun þar sem afraksturinn er seldur og þar eru ekki notaðir plastpokar, heldur pokar sem starfsfólkið saumar sjálft úr efnisbútum undir vörurnar. Íslenska gámafélagið ákvað því að leggja þessu lið og kom með fjölnota poka handa öllu starfsfólki VISS og svo umhverfisvæna maís burðarpoka.

Af þessu tilefni stilltu nokkrir starfsmenn sér upp og tekin var mynd sem sjá má hér að ofan. VISS hefur verið að flokka pappa í bláu tunnuna en nú hefur verið ákveðið að auka enn frekar á flokkun og fá grænu tunnuna frá Íslenska gámafélaginu þar sem flokkað er í hana, pappi, plast og litlir málmhlutir.

Fyrri greinSú ákærða er starfsmaður HSu
Næsta greinFrumsýna nýtt verk eftir heimamann