Gotti fundinn – baðst afsökunar á strokinu

Ostastrákurinn Gotti, sem hvarf af stalli sínum í Sundhöll Selfoss í síðustu viku, fannst í gærkvöldi heill á húfi í íbúðarhverfi á Selfossi.

Gotti hafði greinilega farið út á lífið en hann var klæddur í svarta skyrtu, með sólgleraugu og stráhatt og bjór í hönd. Við hann var fest afsökunarbréf þar sem ostastrákurinn bað forráðamenn sína fyrirgefningar á því að hafa strokið að heiman.

“Ég var kominn með hundleið á því að standa þarna eins og illa gerður hlutur í fleiri ár þannig ég ákvað að fara aðeins að lyfta mér upp, en þið vitið það að þegar ég fer á djammið þá kem ég alltaf heim aftur,” segir Gotti meðal annars í bréfinu.

Strákurinn er þó greinilega einmana uppi á ostinum í sundlauginni því að í lok bréfsins spyr hann hvort ekki sé mögulegt að fá “kellingu” upp á ostinn sinn.

Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, liggur ekki fyrir hverjir eru vitorðsmenn Gotta í strokinu en á öryggismyndavélum sjást tveir menn fjarlægja strákinn af ostinum. Málið er í rannsókn.

Fyrri greinInnbrot og hnupl í dagbók lögreglu
Næsta greinSilja Dögg: Lítil fyrirtæki stækka mest