„Gott að vera búin að klára ferlið“

Brynja Ósk Rúnarsdóttir ásamt hárgreiðslukonunum Andreu Guðlaugsdóttur og Dórotheu Oddsdóttur. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Rangæingurinn Brynja Ósk Rúnarsdóttir hefur staðið fyrir söfnun til styrktar Sigurhæðum síðan 20. mars en hún hefur meðal annars safnað áheitum á hárið sitt. Í dag, á mæðradaginn sjálfan, var hárið rakað af henni með viðhöfn í garðinum hennar heima á Hellu.

Söfnunin stendur nú í 558.000 krónum og er von á fleiri innlögnum. Brynja segir að það sé mun hærri upphæð en hún leyfði sér að vonast til að safna og þakkar hún hárgreiðslustofunum á Hellu og Hvolsvelli fyrir ómetanlegan stuðning.

Sigurhæðir er úrræði fyrir konur sem eru að vinna sig frá áhrifum kynbundins ofbeldis af hvaða tegund sem er. Það er Soroptimistaklúbbur Suðurlands sem er frumkvöðull að stofnun Sigurhæða, sem hefur aðsetur við Þórsmörk 7 á Selfossi.

Það var létt yfir Brynju Ósk þegar Dórothea og Andrea hófu raksturinn. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Dagskrá morgunsins við heimili Brynju við Hólavang á Hellu var fjölbreytt. Fyrst voru tónleikar með Lay Low og síðan var ljósmyndasýning með myndum af Brynju Ósk afhjúpuð en myndirnar sýna endurfæðingu hennar í vatni í Mexíkó síðastliðið haust. Brynja Ósk safnaði í minningu móður sinnar, Þórdísar Óskar Sigurðardóttur, sem lést árið 2020.

Það voru hárgreiðslukonurnar Dórothea Oddsdóttir á Dís Hársnyrtistofu Hvolsvelli og Andrea Guðlaugsdóttir á Hárstofunni Hellu sem sáu um að raka hárið af Brynju Ósk. „Mér er pínu kalt á höfðinu,“ sagði Brynja og hló innilega þegar hárið var farið.

„Það er ekkert gamalt sem hangir á mér,“ sagði Brynja Ósk að rakstri loknum. sunnlenska.is/Jóhanna SH

„Mér líður mjög vel – alveg stórkostlega. Það er góð tilfinning að halda á hárinu – gott að vera búin að klára ferlið. Ég er alveg mjög ný – það er ekkert gamalt sem hangir á mér. Ég er ekki að dröslast með neitt gamalt á mér,“ sagði Brynja í samtali við sunnlenska.is að rúningu lokinni.

Það að raka hárið allt af hefur margvíslegar táknænar merkingar í huga Brynju Óskar. „Með hár, við vitum alveg að það tengist stundum ofbeldi. Konur hafa jú hreinlega verið dregnar á hárinu. Þannig að það er gott að losna við þetta,“ segir Brynja og bætir því við að það sé viss endurfæðing fyrir hana að raka allt hárið af. Sjálf fæddist hún alveg hárlaus þegar hún kom í heiminn og nú sé hún að hefja nýtt líf og nýja hárið, sem mun vaxa á höfði hennar, mun tákna nýtt upphaf.

Brynja Ósk faðmar Sigríði Dröfn Björgvinsdóttur, sem er verndari söfnunarreikningsins. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Brynja Ósk hefur sjálf þurft að leita til Sigurhæða og segir hún að konurnar þar hafi hjálpað henni mikið. „Þær hjálpa manni að fara úr þjáningunni og inn í sársaukann. Skoða sársaukann – þá losnar maður úr þjáningunni. Þetta var svo svo flott þegar ég fékk að heyra þetta.“

„Svo er það með álög og örlög. Og partur af því að lifa ekki í álögum það er að brjóta upp munstur sem hafa í raun fylgt manni frá forfeðrum og þegar maður brýst út úr þessum álögum þá fær maður að lifa örlögin sín. Ég er virkilega að lifa örlögin mín í dag, setja myndirnar hérna upp og já ég er bara mjög ánægð með þetta,“ segir Brynja að lokum.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta enn lagt inn á reikning 0308-13-1093, kennitala: 240769 4419. Verndari reikningsins er Sigríður Dröfn Björgvinsdóttir.

Brynja Ósk við nokkrar af myndunum sem eru á sýningunni í garðinum hjá henni við Hólavang 18. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinDaði Freyr tryllti Evrópu
Næsta greinEgill tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn