„Gott að fá hugmyndir að nýjum aðferðum“

Nýverið sóttu ljósmæður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands námskeið þar sem þær lærðu nýja tækni í saumaskap eftir fæðingu.

„Námskeiðið var á vegum GynZone í Danmörku. Það er hópur sérfræðiljósmæðra sem hefur rannsakað útkomu á spangarrifum eftir fæðingu síðastliðin ár í Danmörku. Í framhaldi af því hafa þær unnið í því að kenna fagfólki nýjar og gamlar aðferðir við saumaskap sem rannsóknir hafa sýnt að reynist best“ segir Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir á HSU í samtali við sunnlenska.is.

Að sögn Sigrúnar fóru sérfræðiljósmæðurnar yfir bæði gamlar og nýjar aðferðir. „Það var gott að fá styrkingu í því sem ljósmæður hafa verið að gera í gegnum tíðina og einnig gott að fá hugmyndir að nýjum aðferðum.“


Ljósmynd/Ljósmæðravakt HSU Selfossi.

Námskeiðið var hluti af endurmenntun ljósmæðra sem starfa við fæðingar á HSU. „Í stað þess að hver og ein færi erlendis á þetta námskeið þá var ákveðið að fá þessar ljósmæður til okkar til að kenna okkur öllum saman. Það er einmitt svo gott að fara yfir hlutina í hóp og spá í hlutina saman, þannig að allar ljósmæðurnar vinni á svipaðan hátt,“ segir Sigrún en allar ljósmæður HSU sóttu námskeiðið.

Sigrún segir að ljósmæður séu duglegar að stunda endurmenntun og sækja námskeið af ýmsu tagi. „En það hefur ekki verið algengt í gegnum tíðina að fá svona námskeið fyrir allan hópinn í einu. Það var þó gert fyrir um það bil fimmtán árum að fengnir voru leiðbeinendur erlendis frá til að kenna öllum ljósmæðrum á HSU nálastungumeðferð,“ segir Sigrún að lokum.


Allar ljósmæður HSU sóttu námskeiðið. Ljósmynd/Ljósmæðravakt HSU Selfossi.