Gosóróinn stöðugur frá hádegi

Gosórói minnkaði frá upphafi goss og á milli klukkan 9 og 11 í morgun var hann lægstur. Síðan jókst hann aðeins um hádegið og hefur verið stöðugur síðan.

Um 1.000 íbúar eru á hamfarasvæðinu, og njóta þeir aðstoðar sitthvorum megin við Skeiðarársand þar sem Vegagerðin hefur lokað veginum af öryggisaðstæðum.
Alls eru um 100 björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu við aðstoð á vettvangi við dreifingu á grímum og öryggisgleraugum og aðstoð við bændur.

Vísindamenn flugu yfir gosstöðvarnar í morgun og hefur gosmökkurinn lækkað úr um 20 kílómetrum í gærkvöldi niður í 10-15 kílómetra í dag.

Mikið öskufall er frá eldstöðinni og liggur öskugeirinn yfir Suðurland, frá Vestmannaeyjum yfir í Öræfasveit og norður yfir Vatnajökul. Borist hafa upplýsingar um öskufall allt frá Vík í Mýrdal að Höfn í Hornafirði. Gert er ráð fyrir að öskufall verði mest til suðausturs en einnig í suður. Þá er öskumistur yfir Suðurlandsundirlendinu og hefur fíngert öskuryk fallið víða, m.a. á Selfossi.

Um er að ræða basaltgos með nokkuð fíngerðri ösku. Sýni sem tekin voru á Kirkjubæjarklaustri í nótt þegar öskufall var um 9,4 g pr fermetra sýndi að askan inniheldur 5-10 mg/kg af vatnsleysanlegum flúor á yfirborði. Sýrustig skolvatns (1g aska, 5g vatn) er veik-basískt – pH 8,6, sem bendir til að askan hafi sundrast í vatnsgufu eins og í upphafi annara Grímsvatnagosa. Eins og í undanförnum Grímsvatnagosum er fyrsta askan hreint glerríkt berg með mjög lítið magn efna á yfirborði. Sjá nánar á vef Veðurstofu Íslands og www.vedur.is og Umhverfisstofnunar www.ust.is. Íbúum svæðisins er bent á að kynna sér öskufallsbækling, sem hægt er að nálgast á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra www.almannavarnir.is. Verið er að dreifa öndunargrímum og öryggis- og varnargleraugum til íbúa á svæðinu

Neyðarstjórn Mílu hefur metið áhrif gossins á fjarskiptakerfi Mílu og gripið til nauðsynlegra aðgerða. Búið er að tryggja varasambönd vegna öryggisfjarskipta og almennra fjarskiptakerfa. Verið er að þétta loftinntök og hurðaop í tækjahúsum á svæðinu. Vefmyndavél Mílu við Jökulsárlón er á slóðinni http://live.mila.is/jokulsarlon/

Veðurspá
Norðan og norðaustan 5-13 m/s, hvassast vestan Öræfa. Skýjað með köflum og stöku skúrir í kvöld Gengur í norðan 10-18 m/s á morgun, hvassast með A-ströndinni.