Gosið áfram stöðugt

Vegurinn frá Vík í Mýrdal að Freysnesi er ennþá lokaður en björgunarsveitarmenn fara nú um svæðið og heimsækja bæi.

Nóttin var annars róleg. Ekki er annað vitað en að gosið sé stöðugt en nánari fréttir frá vísindamönnum berast þegar líður á morguninn.

Nokkrir íbúar Kirkjubæjarklausturs og nágrennis yfirgáfu svæðið í fylgd björgunarsveitarmanna í gærkvöldi og ætla að dvelja annarsstaðar fyrst um sinn.

Vitað er nokkrar kindur og lömb hafa drepist, einkum í Landbroti, suður af eldstöðinni.

Talið er líklegt að skepnurnar hafi blindast vegna ösku og villst ofan í skurði og farið sér að voða. Þá hefur töluvert af bleikju drepist í fiskeldisstöð Klausturbleikju.

Áfram er búist við öskufalli víða SA-lands í dag. Minnkandi norðan- og norðvestanátt í dag, él norðaustantil en léttir til S- og V-lands. Norðvestan 3-10 og bjartviðri síðdegis, en hvassara austast. Hiti 2 til 12 stig að deginum, hlýjast SA-lands. Í gær kl. 18:00 hafði gosstrókurinn haldið 3-6 km hæð en vegna veðurfræðilegra aðstæðna hefur hann lækkað talsvert. Ekki voru eldingar í stróknum.

Leiðbeiningar til íbúa á öskufallssvæðum ef aska fer að berast inn í hús.
• Leggja rakar tuskur við glugga og hurðir
• Hækka hita á ofnum inni
• Setja vatnsskálar á ofna til að hækka rakastig
• Þétta glugga með límbandi

Íbúum á öskufallssvæðum er bent á frekari leiðbeiningar um viðbrögð við öskufalli sem finna má á heimasíðum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Landlæknis, Umhverfisstofnunar og Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.

Tenglar og nánari upplýsingar:
Almannavarnir www.almannavarnir.is
Landlæknir http://landlaeknir.is/
Umhverfistofnun www.ust.is

Fyrri greinAtvinnuátak á öskusvæðum
Næsta greinHífandi rok og öskufjúk