Gosið liggur niðri

Eldgosið í Eyjafjallajökli liggur nú niðri en jarðvísindamenn segja of snemmt að lýsa yfir goslokum.

Í dag lagði gufumökk upp af gígnum en hann hvarf þegar leið á kvöldið. Þegar flogið var yfir gíginn um kl 15:30 í dag mældist mestur hiti á hitamyndavélum tæpar 100°C. Ekki sást til gígsins vegna gufu en engar vísbendingar voru um að kvika kæmi upp.

Óróinn heldur áfram að minnka og er að nálgast það sem hann var fyrir gos.