Goshverinn Eilífur vígður í Hveragerði

Hveragerði skartar sínu fegursta um helgina þegar Garðyrkju- og blómasýningin „Blóm í bæ“ verður haldin á sama tíma og bæjarbúar fagna 70 ára afmæli bæjarins.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir að bærinn hafi sjaldan verið eins fallegur.

„Vorið kom snemma og gróður kom óvanalega vel undan vetri þannig að allar götur bæjarins eru prýddar blómum og gróðri.“

Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðarráðherra, mun setja hátíðina á föstudeginum kl. 17:00 í Lystigarðinum Fossflöt og strax í kjölfarið opnar Blómasögusýning í íþróttahúsi bæjarins. En þar er tengslum blóma við daglegt líf þjóðarinnar í 70 ár gerð skil. Útbúnar hafa verið fimm stássstofur sem sýna húsbúnað og pottaplöntur mismunandi tímabila, hátíðarblómvendir þjóðarinnar eru endurgerðir, blómadrottningum gerð skil og margt margt fleira.

Skreytingar út um allan bæ
Blómaskreytingar utandyra eru áberandi og eru blómaskreytar og náttúrulistamenn frá ýmsum löndum mættir til bæjarins en flestir taka þátt í „LANDART“ verkefni en þar eru unnar skreytingar með náttúrulegum hætti úr efnivið í nærumhverfinu.

Fjölbreytt dagskrá er í boði alla helgina svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nokkrir af fegurstu görðum bæjarins verða til sýnis. Boðið verður uppá sögugöngur um bæinn, þar sem gestum gefst kostur á að kynna sér sögu bæjarins og garðyrkjunnar. Í Hveragerði býr fjöldi listamanna og munu þeir vera með opna vinnustofu sínar í Listhúsinu að Egilstöðum og fjölmargt annað verður

Forseti Íslands verður í Hveragerði á kosningadaginn
Sérstök skemmtidagskrá verður í Lystigarðinum á laugardeginum frá kl. 13:45. Forseti Íslands mun þá veita menningarviðurkenningu Hveragerðisbæjar og skoða sýninguna en á sviði munu m.a. koma fram Sönghópurinn Kamína, Dirty Deal bluesband, og sönghópurinn Lóurnar. Eins verða sýnd atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi sem Leikfélag Hveragerðis sýndi í vetur. Garðyrkjufélag Íslands sem verður með plöntuskiptimarkað og fræðslu um helgina og Norræna félagið í Hveragerði stendur fyrir skemmtilegri Jónsmessuhátíð á laugardeginum.

Hamingja að eilífu með Eilífi í Hveragerði
Að lokum má ekki gleyma sérstæðum viðburði þegar nýr goshver verður vígður í Hveragarðinum á laugardaginn kl. 13:30. Allir sem vilja vera vitni að því ættu ekki að láta það fram hjá sér fara að sjá goshverinn „Eternity“ eða Eilíf gjósa í Hvergarðinum á laugardeginum kl. 13:30 og boða öllum sem hann sjá og verða vitni að gosi hamingju og farsæld á þessum stað þar sem hvergi er styttra til náttúruafla og iðra jarðar en einmitt á hverasvæðinu í miðbæ Hveragerðis.

Allir áhugamenn um gróður, garða og fallegt umhverfi eru hvattir til að leggja leið sína í Blómabæinn um helgina og njóta kyrrðar, fegurðar og skemmtilegra viðburða. Hvergerðingar bjóða alla velkomna í Blómabæinn.

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu hátíðarinnar.