Gosbólstrar í 22 þúsund feta hæð

Samkvæmt upplýsingum frá flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF er gosið sem hófst í nótt staðsett rétt við hábungu Eyjafjallajökuls. Gosbólstrarnir eru nú komnir í 22 þúsund feta hæð. Öskufall er til austurs og nær að Fimmvörðuhálsi.

Stærð sigdældarinnar virðist vera uþb 1km x 600 mtr.

Vatnavextir halda áfram í lóninu við Gígjökul en hlaupvatn er enn ekki farið að renna svo neinu nemur í Markarfljótið. Upplýsingar sem bárust frá Almannavörnum fyrr í morgun um 84 sentimetra hækkun vatnsyfirborðs við gömlu Markarfljótsbrúnna voru á miskilningi byggðar. Gunnar Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir á visir.is að þegar vatnið fari að renna yfir í Markarfljótið taki það 2 til 3 tíma að ná að brúnni.

Gunnar segir erfitt að spá fyrir um hve hratt muni renna í lónið en hann segist enn þeirrar skoðunnar að ekki sé um stórt gos að ræða.

Fyrri greinGosið hefur rofið jökulinn
Næsta greinVaxandi jökulhlaup frá Gígjökli