Göngustígum lokað við Skógafoss

Umhverfisstofnun hefur gripið til þess ráðs að loka einstaka göngustígum við Skógafoss vegna aurbleytu og til að draga úr skemmdum á gróðri meðfram stígum þar sem gengið er utan þeirra.

Mikill fjöldi ferðamanna hefur heimsótt Skógafoss í hlýindum og vætutíð síðustu vikna sem hefur gert það að verkum að álag á göngustíga þar er gríðarlegt.

Á Facebooksíðu Umhverfisstofnunar er greint frá því að á Skógaheiði eru framkvæmdir hafnar við uppbyggingu göngustíga og á meðan er stígurinn þar lokaður.