Göngustíg við Seljalandsfoss lokað norðanmegin

Nú er bara að bíða á meðan rigningin og fossúðinn skolar moldina og hálkuna af stígnum. Ljósmynd/Steinasteinn

Búið er að loka göngustígnum um urðina norðanmegin við Seljalandsfoss vegna vorleysinga og mun lokunin líklega vara fram yfir helgi.

Hægt er að ganga bak við fossinn sunnan megin og þá aftur sömu leið til baka.

Á Facebooksíðu Steinasteins kemur fram að eftir rigningarnar síðasta sólarhring hafi moldarbarð hrunið á göngustíginn og varð af því mjög hált og óþrifalegt á stígnum. Honum var lokað á meðan á lagfæringum stóð og um leið var tækifærið notað til að fella niður tvo stóra steina sem voru orðnir losaralegir og hætta stafaði af.

Nú er bara að bíða á meðan rigningin og fossúðinn skolar moldina og hálkuna af stígnum og talið forsvaranlegt að opna aftur.

Hægt er að fara á bak við fossinn sunnan megin upp járn tröppurnar en fara verður sömu leið til baka. Þá er einnig hægt að fara upp timbur tröppurnar norðan megin og á pallinn þar fyrir ofan.

Fyrri greinGleðilegt sumar!
Næsta greinÞað væri tómt klúður að missa af þessu