Göngumenn í hrakningum á Fimmvörðuhálsi

Frá útkallinu á Fimmvörðuhálsi í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út í dag vegna tveggja göngumanna sem voru í vandræðum á Fimmvörðuhálsi.

Mennirnir náðu að hringja sjálfir í Neyðarlínuna og óska eftir aðstoð, þeir voru ekki slasaðir en voru orðnir blautir og kaldir. Þeir treystu sér ekki til að halda för sinni áfram.

Nokkrir hópar frá björgunarsveitum voru sendir á Fimmvörðuháls bæði gangandi og á snjósleðum. Um klukkan 18 kom björgunarsveitarfólk að mönnunum við Heljarkamb eftir að hafa farið á jeppum og snjósleðum upp hálsinn frá Skógum. Göngumennirnir voru aðstoðaðir yfir Heljarkamb og upp Bröttufönn, þar sem snjósleðarnir voru staðsettir. Þeir fengu far á sleðunum að björgunarsveitarbílum sem voru neðar á gönguleiðinni.

Rétt fyrir klukkan sjö lögðu göngumennirnir af stað til byggða á björgunarsveitarbílum og voru allir að hressast.

Fjögur önnur útköll í dag
Björgunarsveitir á landinu hafa verið kallaðar út fjórum sinnum til viðbótar í dag. Björgunarsveitarfólk frá Vík í Mýrdal dró bíl sem var fastur í á við Hjörleifshöfða á þurrt og á Seyðisfirði þurfti að koma bílstjóra til aðstoðar sem fest hafði bíl sinn í snjó á Skálanesi. Fyrr í dag voru björgunarsveitir einnig kallaðar út í Bolungarvík til að ná í rekald sem var á floti í innsiglingunni í höfnina. Á Húsavík sigldi svo björgunarsveitarfólk á björgunarbát með lækni til móts við veikan farþega sem var um borð í Hvalaskoðunarbát. Öll verkefnin gengu vel.

Fyrri greinJafnt í einvígi Hamars og Vestra
Næsta greinDagskrá sjómannadagsins á Eyrarbakka