Göngumaður villtist að Fjallabaki

Björgunarsveitin Ársæll, sem er á hálendisvakt að Fjallabaki, leitaði síðastliðinn miðvikudag að þýskum göngumanni sem villtur var á svæðinu.

Maðurinn hringdi í Neyðarlínu og bað um aðstoð, sagðist hafa verið á göngu frá Hrafntinnuskeri að Landmannalaugum en kæmist ekki lengra, m.a. vegna ár sem hann gat ekki þverað.

Strax var farið í að leita að manninum á þessari leið, þrátt fyrir að upplýsingarnar stæðust ekki, þ.e. að engin á er á henni. Björgunarsveitafólkið var í símasambandi við manninn en illa gekk að staðsetja hann.

Með í för var landvörður sem þekkir svæðið afar vel og stakk hann upp á að kanna lítt þekkta gönguleið sem liggur að Landmannahelli en ekki Landmannalaugum. Þar fundust fljótlega ummerki eftir göngugarpinn og var þá brugðið á það ráð að hefja hljóðleit, þ.e. kveikja á sírenum bílsins í þeirri von að maðurinn heyrði í þeim.

Maðurinn fannst svo fljótlega, heill á húfi, en hann var orðinn blautur og kaldur og töluvert skelkaður.

Fyrri greinTónlistarhátíðin Englar og menn í Strandarkirkju í Selvogi
Næsta greinSprönguðu á fjallaæfingu við Hlöðufell