Gönguhópar og drónar við leit í dag

Björgunarsveitarmenn á útkikki við Ölfusá. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Áfram verður leitað í dag að Páli Mar Guðjónssyni á og við Ölfusá en hans hefur verið saknað síðan á mánudagskvöld.

„Það verða um það bil 40 manns við leit í dag og við leitum með göngufólki og drónum meðfram ánni alveg niður að Kaldaðarnesi sunnan megin og Arnarbæli norðan megin. Síðan munu drónar fljúga yfir svæði sem eru erfið yfirferðar,“ sagði Tryggvi Hjörtur Oddsson, aðgerðarstjórnandi hjá svæðisstjórn björgunarsveitanna í samtali við sunnlenska.is í morgun.

„Við erum með mannskap úr björgunarsveitum af öllu suðvesturhorninu og það er búið að leggja upp verkefni dagsins sem verða kláruð áður en fer að rökkva. Svo tökum við stöðuna í lok dags,“ bætti Tryggvi Hjörtur við.

Skilyrði til leitar eru ágæt í dag, það er bjart á Selfossi og hægur vindur en ennþá er töluvert vatn í ánni og hún mórauð.

Fyrri greinStórt tap gegn toppliðinu
Næsta greinHelga María ráðin bæjarritari