Göngufélagið tæmdi reikninginn

Hjálparsveit skáta í Hveragerði fékk góðan styrk í dag þegar göngufélagið „Líttu þér nær" tæmdi reikning sinn og millifærði á hjálparsveitina.

Göngufélagið Líttu þér nær var stofnað árið 2000 og stóð fyrir gönguferðum allt til ársins 2006. Þar sem nú eru rúm fjögur ár liðin frá því að félagið hætti allri starfsemi ákvað sitjandi stjórn að slíta því formlega nú um áramótin.

Stjórnarmenn sammældust um að þeir peningar sem félagið ætti í sjóði skyldu allir renna til Hjálparsveitar skáta í Hveragerði.

Björn Pálsson, formaður göngufélagsins, segir að Líttu þér nær hafi farið flestar ferðir sínar í nánasta umhverfi Hjálparsveitar skáta Hveragerði og þó svo að aldrei hafi þurft að kalla eftir aðstoð sveitarinnar var ekki verra að vita af návist hennar.

„Öflug starfsemi Hjálparsveitar skáta Hveragerði hefur leyst vanda margra ferðamanna og þá ekki síst þeirra fjölmörgu sem leið eiga um þjóðveginn á Hellisheiði í misjöfnun vetrarveðrum. Þá er ekki síður aðdáunarvert hversu margt ungt fólk stígur þar sín fyrstu skref á sviði björgunarmála,” segir Björn.

Göngufélagið átti rúmar 230 þúsund krónur inni á bankareikningi og var sú upphæð millifærð inn á reikning hjálparsveitarinnar.

„Það er mér, sem frá upphafi hef gengt stöðu formanns Líttu þér nær, sérstök ánægja að ljúka göngu félagsins með þessum hætti,” sagði Björn að lokum.