Göngubrýr á hjólum yfir Krossá

Útivist hefur sett upp nýjar göngubrýr á Krossá á Þórsmerkursvæðinu. Brýrnar eru á hjólum og því færanlegar.

Brýrnar leysa úr brýnni þörf hjá göngufólki sem þarf að komast milli Goðalands og Þórsmerkur, en síðustu ár hafa göngumenn þurft að vaða eina eða fleiri kvíslar Krossár til að komast þar á milli. Fyrir er göngubrú undir Valahnjúki, en jökulsár eins og Krossá breyta gjarnan farvegi sínum og síðustu ár hefur áin að að mestum hluta runnið framhjá brúnni.

Með þessum nýju göngubrúm er þetta vandamál leyst með því að hafa þær á hjólum og er því hægt að færa þær til eftir því sem áin breytir sér. Undirstöður þeirra eru gerðar úr bómum af byggingakrönum og eru því sterkbyggðar og traustar.

Brýrnar eru staðsettar á Krossáraurum gengt Básum á Goðalandi og Stóraenda í Þórsmörk og nýtast fyrir fjölmargar gönguleiðir á svæðinu. Má þar nefna Fimmvörðuháls yfir í Langadal og Húsadal, Laugaveg yfir í Bása, út Básum inn að Krossárjökli, Rjúpnafell og aðrar leiðir í Þórsmörk, úr Langadal og Húsadal í Goðaland og að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Með tilkomu brúnna opnast því margvíslegir möguleikar til gönguferða í Þórsmörk og Goðalandi.

Fyrri greinKosning á netstúlkunni hafin
Næsta greinFyrsta lagið komið í spilun