Golfsambandið lýsir yfir áhyggjum vegna golfvallar

Golfsamband Íslands hefur skrifað sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps bréf þar sem lýst er áhyggjum sambandsins vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um uppbyggingu golfvallar á Minni-Borg.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps lýsir undrun sinni á að Golfsambandið hafi áhyggjur af uppbyggingu og eflingu golfíþróttarinnar og segir Gunnar Þorgeirsson, oddviti sveitarfélagsins, það tíðindum sæta að hagsmunasamtök íþróttarinnar skuli hafa áhyggjur af fjölgun golfvalla. Hann bendir ennfremur á að bygging golfvallarins hafi verið rækilega auglýst og samþykkt í deiliskipulagi og aðalskipulagi sveitarfélagsins og þá hafi engar athugasemdir borist frá Golfsambandinu.

Í bréfi Golfsambandsins segir að Grímsnes- og Grafningshreppur hafi ekki haft mikla aðkomu að rekstri eða uppbyggingu golfklúbbanna í Kiðjabergi og Öndverðarnesi. Ennfremur segir: „Áætlanir sveitarfélagsins vekja óneitanlega upp áhyggjur um þann aðstöðu- og fjárveitingamun sem fyrir hendi verður á milli núverandi golfklúbba annars vegar og golfvallar sveitarfélagsins hins vegar.“

Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands, segir sveitarstjórnina mistúlka bréf Golfsambandsins. Það hafi verið vilji sambandsins að benda á þann mismun sem golfklúbbar búa við á svæðinu og að misræmi í stuðningi frá opinberum aðilum geti haft mikil áhrif á afkomu þeirra. Hörður bendir á að til að mynda greiði Hafnarfjörður 90 prósent af framkvæmdarkostnaði viðkomandi golfvallar enda sé litið á golf sem íþrótt sem beri að styðja við og styrkja.

Þetta eru ekki einu bréfin sem sveitarstjórninni hafa borist vegna golfvallarins. Múrarameistarfélag Reykjavíkur og Meistarafélag húsasmiða hafa ritað bréf til sveitarstjóranr þar sem skorað er á hana að hætta við byggingu golfvallarins að Minni-Borg.