Golfhönskum, bjór og sjónvarpi stolið

Að morgni 1. september var tilkynnt um innbrot í vélageymslu við golfskálann í Þorlákshöfn. Þaðan var stolið handverkfærum og fleiru auk þess sem skemmdir voru unnar á húsnæðinu.

Nóttina eftir var farið inn í golfskálann sjálfan og þaðan stolið sjónvarpi, einhverju af bjór og nokkru magni af golfhönskum. Í dagbók lögreglunnar á Selfossi kemur fram að hanskarnir séu flestir á hægri hendi en alsiða mun vera meðal iðkenda golfíþróttarinnar að íklæðast hanska á annarri hendi og þeir því seldir stakir.

Brotist var inn í bifreið sem stóð við Skarfaskersbryggju í Þorlákshöfn í liðinni viku og úr henni stolið geislaspilara. Þá var brotin rúða í bifreið í við Kambahraun í Hveragerði að kvöldi sl. föstudags eða á laugardagsmorgun. Úr bifreiðinni var stolið eldsneytiskortum.

Lögregla biður alla þá sem gætu haft upplýsingar um ofangreind mál að hafa samband í síma 480 1010.