GOGG synjar öllum nýjum deiliskipulagstillögum fyrir frístundabyggð

Hluti sumarhúsabyggðarinnar í Grímsnesinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi sínum í gær að synja öllum nýjum deiliskipulagstillögum fyrir frístundabyggð í sveitarfélaginu, sem og tillögum um fjölgun frístundahúsalóða innan þegar deiliskipulagðra frístundasvæða og öllum tillögum um verulegar breytingar innan þegar deiliskipulagðra frístundasvæða.

Jafnframt ákvað sveitarstjórn að hafna öllum breytingum á aðalskipulagi sem varða frístundabyggðir. Þetta á ekki við um þau mál sem þegar hafa verið samþykkt til auglýsingar.

Færst hefur í vöxt að einstaklingar hafi fasta búsetu allt árið í frístundahúsum innan skipulagðra frístundabyggða í Grímsnes- og Grafningshreppi. Skipulagsáætlanir og þjónusta sveitarfélagsins gerir hins vegar ekki ráð fyrir því enda er frístundabyggð skilgreind í skipulagslögum sem „svæði fyrir frístundahús, þ.e. byggð sem ekki er ætluð til fastar búsetu“.

Óvissa um skipulagsvald sveitarfélagsins
Í bókun sveitarstjórnar segir að frístundahús uppfylli ekki þetta skilyrði enda séu þau skilgreind í lögum um frístundabyggð sem hús „utan þéttbýlis sem aðallega er nýtt til að fólk geti dvalist þar tímabundið til að eyða frítíma sínum og þar sem að öðru jöfnu er óheimilt að hafa skráð lögheimili. Aukinheldur gera lög um lögheimili og aðsetur, þá kröfu að lögheimili skuli skráð í húsnæði „sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og hefur staðfang“.

„Þjóðskrá Íslands hefur tekið upp á því að skrá einstaklinga sem kjósa að hafa fasta búsetu innan frístundabyggða í Grímsnes- og Grafningshreppi, í trássi við fyrirmæli laga, með lögheimili í sveitarfélaginu án tilgreinds heimilisfangs. Því háttar nú svo til að fjöldi einstaklinga er nú skráður með lögheimili í Grímsnes- og Grafningshreppi án tilgreinds heimilisfangs,“ segir í bókun sveitarstjórnar sem segir ennfremur að þetta hafi leitt til óvissu um skipulagsvald sveitarfélagsins og hvaða réttindi og skyldur gilda um þennan hóp fólks.

Breytingar ekki gerðar án aðkomu Alþingis og sveitarfélaganna
„Sveitarstjórn hefur ítrekað vakið athygli innviðaráðuneytisins, sem fer með málefni sveitarfélaga, og dómsmálaráðuneytis, sem fer með lögheimilismál, á stöðu mála. Væntingar standa til þess að ráðuneytin vinni að lausn og hefur t.d. verið nefnt að heimila skráningu lögheimilis í frístundahúsum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er ljóst að slíkar breytingar verða ekki gerðar án aðkomu Alþingis og sveitarfélaganna. Á meðan óvissa ríkir telur sveitarstjórn sér ekki fært að taka ákvarðanir um frekari þróun frístundabyggða innan Grímsnes- og Grafningshrepps,“ segir ennfremur í bókun sveitarstjórnar.

Fyrri greinStafræn lausn fyrir gjafakort og vildarkjör í miðbæ Selfoss
Næsta greinKA hafði töglin og hagldirnar