GOGG sér um bókhaldið

Grímsnes- og Grafningshreppur hefur samþykkt að taka að sér bókhald undirstofnana Héraðsnefndar Árnesinga og fær greitt fyrir 600 þúsund krónur á ári.

Um er að ræða bókhald héraðsskjalasafnsins, Listasafns og Byggðasafns Árnesinga en bókhald Tónlistarskóla Árnesinga fellur ekki undir þessa vinnu.

Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, segir að hingað til hafi bókhaldsþjónusta undirstofnana Héraðsnefndar verið hjá mismunandi aðilum og mjög erfitt hafi verið að bera saman rekstur þeirra. Því hafi verið ákveðið að samræma bókhaldið og flytja til eins aðila sem héldi utan um það og telur Gunnar að í þessu felist sparnaður til lengri tíma.