Goðsögn við þjóðveginn kvödd

Jón Viðar Stefánsson, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1, Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1 og Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, ásamt þeim Guðmundi og Lóu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Samferðafólk Guðmundar Elíassonar og Ólafíu Ingólfsdóttur kvöddu þau í dag í Nesti á Selfossi en nú um mánaðamótin láta þau af störfum hjá N1.

Guðmundur er goðsögn við þjóðveginn en hann tók við rekstri Víkurskála í Vík um áramótin 1987-1988 og stuttu síðar við rekstri Skaftárskála. Árið 1996 varð hann yfirmaður skálasviðs Kaupfélags Árnesinga og stýrði þá söluskálunum á Hlíðarenda á Hvolsvelli, Fossnesti á Selfossi og stöðinni í Hveragerði.

Árið 2003 keypti Guðmundur Víkurskála og Hótel Vík og rak í rúm fjögur ár áður en hann flutti á Selfoss eftir að Elías sonur hans hafði keypt reksturinn í Vík. Árið 2007 varð hann stöðvarstjóri N1 í Fossnesti og á Hlíðarenda og sama ár hóf Lóa störf hjá N1.

„Eftir rúmlega þrjátíu ár þá segir það sig sjálft að mér finnst þetta góður vinnustaður. Þetta er orðinn langur tími en það sem stendur uppúr er frábært starfsfólk í gegnum tíðina og svo auðvitað allt þetta fólk sem maður hefur hitt á leiðinni, allir þessir fjölmörgu viðskiptavinir sem hafa komið við hjá manni,“ sagði Guðmundur og viðurkenndi að hann væri nokkuð meyr á tímamótunum. Hann er þó ekki alveg hættur því hann verður á ferðinni áfram í aðstoð við leiðsögumenn og fleira. „Það er einn skemmtilegasti hluti starfsins.“

Fjöldi fólks mætti í Fossnesti til þess að kveðja Guðmund og Lóu enda hafa margir fengið pönnuköku hjá þeim á Hlíðarenda í gegnum tíðina. Meðal annars söng Karlakór Selfoss nokkur lög og boðið var upp á vöfflur frá Vöffluvagninum.

Guðmundur ásamt Birni Þórarni Birgissyni, nýjum stöðvarstjóra N1 á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Jón Viðar flutti skemmtilega tölu og fór yfir feril Guðmundar og Lóu. Fyrir aftan hann eru félagar úr Karlakór Selfoss sem sungu í veislunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ólafía Ingólfsdóttir og Guðmundur Elíasson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHeimildarmynd um Jónas Kristjánsson frumsýnd á næsta ári
Næsta greinVeitur auglýsa tvær veitur í Bláskógabyggð til sölu