Goðsögn í ferðaþjónustu heiðruð

Starfsmenn Kynnisferða komu Guðmundi á óvart og heiðruðu hann á sjötugsafmælinu. Ljósmynd/SigAlbert

Þegar fréttist að sjötugsafmæli  var í farvatninu hjá Guðmundi Elíassyni fyrrum vert í Víkurskála og á Hlíðarenda á Hvolsvelli rifjuðust upp á kaffistofum og mannamótum sögur af því hvernig starfsmenn í ferðaþjónustu á Íslandi hafa áratugum saman notið gestrisni og höfðingsskapar  – og stundum jafnvel aðstoðar á raunastundum hjá honum.

Það hefur ekki skipt máli hvað klukkan er ef eitthvert basl er í gangi – alltaf hefur verið hjálp og skjól að fá fyrir bílstjóra, leiðsögumenn og gesti þar sem Guðmundur ræður ríkjum.

„Það er ómetanlegt fyrir alla sem í ferðageiranum starfa að eiga slíka griðastaði. Guðmundur er í lifanda lífi orðinn goðsögn meðal bílstjóra og leiðsögumanna fyrir fádæma góðar viðtökur, og Hlíðarendi hefur á seinni árum orðið frægur og eftirsóttur staður að koma á og jafnframt viðmið sem allir aðrir staðir eru bornir saman við meðal starfsmanna í ferðaþjónustu,“ segir í skemmtilegri frétt sem Kynnisferðir sendu sunnlenska.is.

Því var ákveðið í tilefni þessara tímamóta hjá Guðmundi að færa honum áritaðan þakklætisvott frá starfsfólki Kynnisferða og fór sú athöfn fram 8. apríl í kaffistofu starfsmanna á BSÍ en þangað hafði Guðmundur verið plataður á allt öðrum forsendum með leynilegu samstarfi við eiginkonuna, Ólafíu Ingólfsdóttur.

Guðmundur og Ólafía. Ljósmynd/SigAlbert

 

Fyrri grein„Þurfum að vera með réttu græjurnar“
Næsta greinGrýlupottahlaup 1/2019 – Úrslit