Góð bóksala fyrir jólin

Elín Gunnlaugsdóttir í Bókakaffinu með tvær af vinsælustu bókum útgáfunnar Sæmundar; Álfadal eftir Guðrúnu J. Magnúsdóttur og Svartdjöful eftir Gunnlaug Bjarnason. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Sú bók sem var hvað vinsælust í Bókakaffinu á Selfossi fyrir þessi jól voru bókin Keltar eftir Þorvald Friðriksson. Almanak HÍ trónir þó alltaf á toppnum yfir mest seldu bækur ársins.

Þetta segir Elín Gunnlaugsdóttir, bóksali í Bókakaffinu, og bætir við að bóksalan fyrir jólin hafi verið góð.

„Óveðurshelgin rétt fyrir jólin setti þó aðeins strik í reikninginn en síðasta vikan var mjög góð. Nýja árið fer svo vel af stað. Ferðamennirnir dvelja greinilega eitthvað fram á nýja árið og þeir hafa skilað sér ágætlega til okkar,“ sagði Elín í samtali við sunnlenska.is.

„Bókakaffið er annars ekki rekið með það í huga að selja eingöngu metsölutitla. Sérstaða þess felst í miklu úrvali og ætti hver sem leggur leið sína í Bókakaffið, hvort sem að það er fyrir jólin eða í annan tíma, að finna lesefni við hæfi,“ bætir Elín við.

Arnaldur og Ólafur Jóhann mjög vinsælir
Í skáldsögum voru Kyrrþey eftir Arnald Indriðason og Játning ef Ólaf Jóhann Ólafsson mjög vinsælar og vinsælustu barnabækur voru Ófreskjan í mýrinni eftir Sigrúnu Eldjárn og Bannað að ljúga eftir Gunnar Helgason.

Ljóðabækur seljast yfirleitt í fremur fáum eintökum en vinsælasta ljóðabókin í ár var bókin Stundum verða stökur til… eftir Hjálmar Jónsson og Urta eftir Gerði Kristnýu. Skáld-Rósa og Svartdjöfull eftir Gunnlaug Bjarnason komu þar á eftir.

Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi átti að venju sterka fulltrúa í jólabókaflóðinu en þær bækur Sæmundar sem voru hvað vinsælastar fyrir þessi jól voru bækurnar Álfadalur eftir Guðrúnu J. Magnúsdóttur, Örlagaskipið Arctic eftir G. Jökul Gíslason og Rauði þráðurinn sem er ævisaga Ögmundar Jónassonar.

Fyrri greinSólborgarsvæðið aftur til Hveragerðisbæjar!
Næsta greinSveinarnir brugðu blysum á loft