Góður gangur í stígaviðhaldi á Þórsmörk

Undanfarnar vikur hefur fjöldi erlendra sjálfboðaliða starfað að stígaviðhaldi á Þórsmörk og Goðalandi. Nú þegar hafa hóparnir skilað rúmlega 100 vikna vinnu, eða tveimur ársverkum og lokið við yfirferð á nokkrum fjölförnustu köflum á Þórsmerkursvæðinu.

Bæði er verið að lagfæra stígana sjálfa, en einnig að loka gömlum rofsárum í kring um stígana. Verkefnið er að hluta fjármagnað af styrkjum frá sjóðum og fyrirtækjum.

Þarna er bæði um að ræða sjálfboðaliða sem koma á vegum verkefnisins Trail team sem er gert að frumkvæði Chas Goeamans frá Skógrækt ríkisins, en einnig hafa hópar erlendra sjálfboðaliða frá Umhverfisstofnun starfað að verkefninu. Flestir sjálfboðaliðarnir vinna 6 vikur í senn, gista í tjöldum í Langadal eða Básum og hafa aðstöðu til matargerðar bæði í matartjaldi og í skála Útivistar. Í vor var sett upp aðstöðuhús og var keypt matartjald og hafa hóparnir komið sér upp myndarlegum tjaldbúðum þar sem hluti hópsins hefur mötuneyti. Þrátt fyrir bleytutíð í sumar hafa hóparnir skilað miklu og góðu verki enda vel gallaðir frá 66°N sem styrkti verkefnið.

Helstu verkefnin þetta sumarið hafa verið í upphafi „Laugavegarins“ úr Langadal, í Valahnúk bæði ofan Húsadals sem og Langadalsmegin, auk þess sem stígar á toppi Valahnúks hafa verið lagfærðir. Stígurinn upp Stangarháls við Stóra Enda hefur einnig verið lagfærður. Goðalandsmegin hefur verið unnið að lagfæringum á Básahringnum, á stígnum upp á Réttarfell og á upphafi stígarins yfir Fimmvörðuháls, bæði ofan Kattahryggja sem og neðar á stígnum. Helstu verkefni eru að setja varanleg þrep á stígana, setja ræsi þar sem bratti er svo vatn renni ekki eftir stígunum og valdi jarðvegsskemmdum. Einnig vinna hóparnir að því að loka gömlum sárum þar sem úrrennsli hefur verið úr stígunum. Gamlir grenireitir á Þórsmörk hafa verið grisjaðir og efni úr þeim notað í þrep og ræsi og kemur sér vel að til sé efniviður á svæðinu.

Á heimasíðu Skógræktarinnar segir að viðhald stíga á Þórsmörk og Goðalandi sé erfitt og krefjandi verkefni sem taki engan enda enda tugþúsundir ferðamanna sem ferðast um stígana og valda sliti á þeim. Hafa sjálfboðaliðahóparnir unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður og munu halda áfram góðu starfi fram á haust.

Fyrri greinLandsmótsmyndir: Sunnudagur
Næsta greinFannar Ingi undir pari á lokahringnum