Góðar gjafir í minningu Svandísar Þulu

Leikskólinn Æskukot á Stokkseyri fékk góðar gjafir í dag í minningu Svandísar Þulu Ásgeirsdóttur, en í dag eru sjö ár liðin frá því að hún lést í bílslysi, aðeins 5 ára gömul.

Þegar slysið átti sér stað var hún í bíl með föður sínum og eldri bróður, Nóna Sæ, en hann lamaðist fyrir neðan mitti í slysinu og hefur verið í hjólastól síðan.

Eftir andlát Svandísar Þulu stofnuðu foreldrar hennar þau Hrefna Björk Sigurðardóttir og Ásgeir Ingvi Jónsson minningarsjóð um hana. Svandís Þula var ættuð frá Stokkseyri og er hún jarðsett í kirkjugarðinum á Stokkseyri.

Í morgun komu foreldrar hennar og systkini færandi hendi í Æskukot og gáfu þau leikskólanum tvo geislaspilara, iPad og nokkrar barnabækur. Sýndu leikskólabörnin gjöfunum mikinn áhuga.

Hrefna byrjaði á því að gera töfrabragð fyrir börnin, síðan sungu börnin fyrir gestina og í lokinn fengu allir safa og piparkökur.

Frá þessu er greint á stokkseyri.is

Fyrri greinKjörís valið fyrirtæki ársins
Næsta greinJohn Grant mælir með Vík í Mýrdal