Góð rekstrarniðurstaða í Hveragerði

Rekstur Hveragerðisbæjar gekk vel á síðasta ári eins og ársreikningur bæjarins sýnir en hann var samþykktur í bæjarstjórn á dögunum.

Reikningurinn sýnir að rekstur bæjarins (samstæðu A og B hluta) gekk vel á árinu og var rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) um 284 milljónir sem er um 17% af heildartekjum.

Rekstrarniðurstaða með afskriftum en án fjármagnsliða er jákvæð um 203 mkr sem er um 12,1% af heildartekjum. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var afgangur af rekstri um 11,1 mkr á árinu 2012 sem er um 0,7% af heildartekjum samstæðunnar.

Skuldahlutfall er 143,5% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.

Eigið fé í árslok nemur 815 milljónum og er eiginfjárhlutfall 22,7%. Ef litið er til helstu einstöku málaflokka fara 47,5% af tekjum bæjarins til fræðslu- og uppeldismála, 12,9% fara til félagsþjónustu en þar eru málefni fatlaðs fólks meðtalin og 10,4% fara til æskukýðs- og íþróttamála.

Fjárfestingar á árinu námu 376 mkr. Helstu fjárfestingar voru bygging Hamarshallarinnar, en hún er fyrsta loftborna íþróttahús landsins, rúmir 5.000 m2 og var tekin í notkun á árinu. Einnig var keypt húsnæði Heimilisins við Birkimörk og fjárfest í göngustígum og umhverfisúrbótum. Ný langtímalán voru tekin 326 mkr en afborganir langtímalána námu 150 mkr.

„Ársreikningurinn sýnir að rekstur bæjarins er í jafnvægi þó markmið bæjarstjórnar sé að gera enn betur. Forstöðumenn og starfsmenn eiga þakkir skyldar fyrir að hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Fyrri greinStröndin heillar ljósmyndara
Næsta greinÞóra gaf HSu nýjan altarisdúk