Góð aðsókn að ML

Aðsókn að Menntaskólanum að Laugarvatni er góð næsta vetur en útlit er fyrir að um 170 nemendur verði í skólanum í haust og eru það ívið fleiri en voru á síðustu vorönn.

Að sögn Halldórs Páls Halldórssonar, skólameistara, eru 45 nýnemar skráðir inn á fyrsta ár og fimm nemendur metnir inn á efri ár.

„Síðan flytjast um 120 nemendur milli bekkja svo að heildarfjöldinn næsta haust verður því um 170 nemendur en 164 nemendur voru í skólanum nýliðna vorönn,“ segir Halldór Páll og bætir við að heimavistin verði fullnýtt.

„Við fullnýtum heimavistarhúsin Nös, Kös og Fjarvist og auk þess sem við nýtum áfram húsið Hlíð sem er gamalt heimavistarhús héraðsskólans og ekki fjarri skólahúsinu,“ segir Halldór Páll ennfremur.

Fyrri greinSkólamörk opin í sumar
Næsta greinHandleggsbrotnaði í mótorhjólaárekstri