Góðæri í kornræktinni

Það er skammt stórra högga á milli í kornræktinni hér á landi. Sumarið í fyrra var eitt það versta í manna minnum og allmargir sem urðu fyrir uppskerubresti sáðu ekki korni í vor. Í ár er kornuppskeran hins vegar með allra besta móti.

„Sumarið var með eindæmum gott og eitt það besta frá því að ég byrjaði að sá korni,“ segir Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri, formaður Landssambands kornbænda.

„Flestir kornbændur eru búnir að slá og ég hygg að mest allt korn sé komið í hús. Ég sló til að mynda um 20. ágúst. Uppskeran hefur sjaldan eða aldrei verið betri og nýtingin góð, lítið sem ekkert hefur farið forgörðum vegna veðurs,“ segir Ólafur, sem sjálfur sáði korni í 47 hektara og af þeim fékk hann tæp 200 tonn af korni.

Ekki er ennþá komið í ljós hve margir bændur á Suðurlandi sáðu korni í vor og í hve marga hektara var sáð. Samkvæmt Búnaðarsambandi Suðurlands er ennþá verið að safna gögnum og endanlegar upplýsingar liggja ekki fyrir fyrr en síðar í haust.

Fyrri grein„Vantaði að taka frumkvæðið aftur“
Næsta greinSigurður meðal keppenda