„Góður áfangi“

Þekkingarsetrið Nýheimar á Höfn í Hornafirði var formlega stofnað sl. föstudag, 31. maí. Helstu markmið hins nýja þekkingarseturs eru að efla samstarf stofnana og fyrirtækja í Nýheimum með sérstaka áherslu á menntun, menningu, rannsóknir og nýsköpun.

Einnig að stuðla að aukinni virkni einstaklinga, atvinnulífs, stofnana og opinberra aðila með það að leiðarljósi að örva nýsköpun, fjölga störfum og auka lífsgæði á Suðausturlandi.

„Þetta er góður áfangi,“ segir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Hornafirði. „Með þessu aukum við slagkraftinn í starfi okkar við að auka fjölbreytni í atvinnumálum og að bæta lífsgæði íbúa í víðum skilningi. Það að Nýheimar fái kennitölu gerir stofnunum innan hússins auðveldara um vik að sækja sameiginlega fram gagnvart hinu opinbera og auðveldar með fjármögnun á verkefnum úr ýmsum nýsköpunar- og rannsóknasjóðum.“

Starfsemi hófst í Nýheimum árið 2002 og þar hefur verið óformlegt en öflugt samstarf á milli þeirra stofnana sem þar hafa aðsetur. Á tíu ára afmæli Nýheima haustið 2012 var ritað undir viljayfirlýsingu milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og aðila innan Nýheima um eflingu Nýheima næstu tíu árin. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu var að setja á laggirnar formlega starfsemi undir merkjum Nýheima.

Stofnaðilar Þekkingarsetursins Nýheima eru Skólaskrifstofa Hornafjarðar, Háskóli Íslands, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ríki Vatnajökuls ehf., Náttúrustofa Suðausturlands, Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.

Fyrri greinVaka sigraði á starfsíþróttamótinu
Næsta greinGlæsilegt opnunarkvöld á Fróni