Alls veiddust 19.867 fiskar á stöng í Veiðivötnum í sumar en stangaveiðitímabilinu lauk í síðustu viku. Heildarveiðin var 9.609 urriðar og 10.258 bleikjur.
Í lokaviku stangveiðitímans komu 1.357 fiskar á land og var besta veiðin í Litlasjó, enda héldu veiðimenn sig þar að mestu leiti. Í Litlasjó fengust 688 fiskar í vikunni sem er mjög gott svona síðsumars. Færri fiskar komu úr öðrum vötnum enda fáir veiðimenn þar á ferð.
Besta veiði sumarsins var í Litlasjó, en þar kom 5.171 urriði á land og var meðalþyngdin yfir 2 pundum og heildarþyngd afla 10.966 kg. Þetta er betri veiði en undanfarin ár, og þarf að fara aftur til ársins 2012 til að finna hærri aflatölur úr Litlasjó.
Næstmest veiddist í Snjóölduvatni, 5.003 fiskar, en þar var uppistaðan í veiðinni smábleikja þó svo stærri fiskar væru innanum.
Stærsti fiskur sumarsins var 12 punda urriði úr Hraunvötnum sem veiddist í fyrstu veiðivikunni og mesta meðalþyngdin var 3,52 pund í Grænavatni.