Góð sala á mjólk – skyrið stendur í stað

Sala á mjólkurafurðum var mjög góð í janúar 2014 en það eru sem fyrr fituríkar afurðir sem mest aukning er í, þó má sjá aukningu í öllum vöruflokkum nema skyri, sem stendur í stað.

Salan á fitugrunni undanfarna 12 mánuði er 121,9 milljónir lítra sem er 6,5% aukning. Sala á próteingrunni á sama tímabili er 117,9 milljónir lítra, sem er 1,9% aukning. Þetta kemur fram í nýútkomnu söluyfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnað.

„Samhliða góðri sölu er ánægjulegt að sjá hvað bændum hefur tekist að auka framleiðsluna að undanförnu. Innvigtunin í sl. viku var ríflega 100 þúsund lítrum meiri en í sömu viku í fyrra, í upphafi þessa árs var munurinn á innvigtun sömu vikna á bilinu 40-60 þúsund lítrar. Það er því greinilegt að hraðinn á aukningunni í innvigtun mjólkur er að aukast, sem sýnir vel þann kraft sem í greininni býr“, sagði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.