Góð aðsókn í Slakka

Að sögn Helga Sveinbjörnssonar, eiganda dýragarðsins í Slakka í Laugarási, hefur aðsókn það sem af er sumri verið góð.

Helgi sagðist telja að nýja brúin yfir Hvítá hefði talsvert með það að gera en hann sagðist sjá talsvert af nýjum andlitum auk þess sem aðsókn útlendinga hefði aukist.

Fyrr í sumar var ráðist í talsverðar endurbætur í Slakka en þá voru allar girðingar rifnar niður og nýjar reistar. Að sögn Helga var lögð áhersla á að nota efni úr héraðinu og kemur allur viður í nýju girðingarnar úr Haukadalsskógi.