Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru kallaðir út á þriðja tímanum í dag eftir að eldur kviknaði í sinu við Jórvíkurhverfið, syðst á Selfossi.
Um 2.000 fermetra svæði brann en slökkvistarf gekk nokkuð greiðlega fyrir sig þó að gjólan hafi ekki gert slökkviliðinu neinn greiða. Slökkvistarfi lauk rétt eftir klukkan þrjú.
Samkvæmt heimildum sunnlenska.is kviknaði eldurinn út frá glóð eftir lítinn flugeld og var vindurinn var fljótur að magna upp eldinn.
Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir að hans menn verði á tánum í kvöld og fólk sé beðið um að fara varlega með flugelda og eldfæri.
„Það eru talsvert aðrar aðstæður í dag heldur en um áramótin. Jarðvegur og gróður hefur þornað mikið í rokinu síðustu daga þannig að við biðjum fólk um að fara varlega með eld og flugelda í dag og í kvöld,“ segir Lárus.


