Gleymdist að fara fram á refsingu

Héraðsdómur Suðurlands hefur vísað frá dómi máli gegn einstaklingi sem var ákærður fyrir líkamsárás á 800 Bar á Selfossi í fyrra.

Ákærði var kærður fyrir að hafa slegið fórnarlamb sitt í andlitið, einu hnefahöggi með þeim afleiðingum að fórnarlambið nefbrotnaði.

Ástæðan fyrir því að málinu var vísað frá dómi er sú að ákæruvaldinu láðist að gera kröfu um að ákærði yrði látinn sæta refsingu og að greiða sakarkostnað.

Segir í úrskurði héraðsdóms að við þingfestingu hafi lögreglustjóraembættið á Selfossi gefið út framhaldsákæru dagsetta þann 16. júní sl. Þar kemur fram að breyta þurfi ákærunni á þann hátt að þess sé krafist að ákærði sæti refsingu og til greiðslu sakarkostnaðar.

Dómarinn féllst hins vegar ekki á það þar sem ekki liggi nýjar upplýsingar frammi varðandi málið en í þessu tilviki hafi ákæruvaldið uppgötvað það á síðari stigum að láðst hafi að greina frá kröfugerð ákæruvaldsins í ákæruskjalinu. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi.

Allur sakarkostnaður fellur á ríkissjóð.